þriðjudagur, maí 22, 2007

Að greina sig frá almúganum...

Morgunblaðið á netinu er að verða virðulegur fréttamiðill í samanburði við pappírsútgáfuna sem verður alltaf fáránlegra og fáránlegra í máttvana tilraunum sínum til að hafa áhrif í þjóðfélaginu.

En rétt um það leyti sem ég hélt að mbl.is ætlaði að skáka stórabróður rak ég augun í þessa yndislega illa þýddu mola sem kallast stjörnuspeki á vef mbl.is (Athugið að mbl.is er næst á eftir mbk.is í stafrófsröð. Athyglisvert! Hvað skyldi leynast á mbk.is?)

Tvö sýnishorn úr stjörnuspekinni:

FISKAR 19. febrúar - 20. mars
Þvert á móti því sem margir vilja halda fram þá geturðu haldið kökunni og borðað hana líka. Já, með því að borða hana ekki alla í einu. Sama á við um aðrar freistingarnar sem þú vilt ná valdi yfir.

Og þetta:
VATNSBERI 20. janúar - 18. Febrúar
Greindu þig frá almúganum með því að koma með yfirlýsingu sem sker sig úr. Skapaðu heim sem "er þú". Notalegt heima fyrir, og smart á skrifstofunni.

Skapaðu heim sem "er þú"! Vá. Veit ekki hvort er hallærislegra, hugsunin á bak við þetta eða kauðalegt orðalagið. Toppurinn er auðvitað að koma með yfirlýsingu sem sker sig úr og greinir þig jafnfram frá almúganum.

Fólk sem kemur með yfirlýsingar sem skera sig úr.

Ímyndið ykkur mann sem segir eftirfarandi setningu hátt og snjallt á aðalfundi Glitnis:
"Það er bremsufar í brókinni minni"

eða þetta sem konan segir á flokksþingi Sjálfstæðisflokksins.
"Ég skil ekki helminginn af orðunum sem þið notið, en mér finnst rosalega gaman hérna."

Nú eða kona sem stígur upp á borð í hléi í Óperunni og kemur með yfirlýsingu sem sker sig úr:
"Í hvert skipti sem ég hnerra þá pissa ég ofurlítið á mig. Mér finnst ég ekki verri manneskja fyrir vikið."

75% íþróttafréttamanna hafnað!

Það er nöturleg niðurstaða úr þessum kosningum hversu staða íþróttafréttamanna er slæm á Alþingi.
Af þeim fjórum íþróttafréttamönnum sem voru í vænlegri stöðu á listum, er aðeins 25% veitt brautargengi á meðan 75% þeirra mega bíta í það súra epli að vera fórnað fyrir hagsmuni þeirra sem hafa aldrei verið íþróttafréttamenn.
Þetta er kunnuglegt valdatafl og það er líkt og ósýnilegt glerþak haldi íþróttafréttamönnum frá því að ná árangri og lá
ta rödd sína heyrast.

Eini íþróttafréttamaðurinn sem náði kjöri er þessi:Steingrímur J. Sigfússon, fyrrv. íþróttafréttamaður

Þessum íþróttafréttamönnum var hins vegar hafnað af gömlu valdakerfi anti-sportista þar sem ráðum er ráðið í reykfylltum bakherbergjum en ekki í björtum höllum, upplýstu myndveri eða á víðáttumiklum leikvöngum.


Samúel Örn Erlingsson, íþróttafréttamaður



Kristrún Heimisdóttir, fyrrv. íþróttafréttamaður



Ómar Ragnarsson, fyrrv. íþróttafréttamaður


Þessu verður að linna og Sportistafélag Íslands vill leggja sitt af mörkum. "Sportisti er manneskja sem gerir sér grein fyrir því að staða íþróttafréttamanna er ekki sú sama og annarra manna og vill gera eitthvað í."
Það er ekki nóg að segjast bara hafa áhuga á íþróttum eða vera jákvæður gagnvart íþróttum. Við eigum ekki að vera hrædd við orð. Inn við beinið erum við flest sportistar, við þorum bara ekki að nota þetta orð vegna þess að miklir fordómar beinast gegn því, gamlar staðalmyndir um heimskan sportista sem hugsar ekkert andlegt og er jafnvel á móti bókum og hugarleikfimi. Þannig þarf þetta ekki að vera. Og Sportistafélag Íslands ætlar að breyta því.

mánudagur, apríl 23, 2007

Myndamál

Loksins kominn með nothæfa myndavél, þótt lítil og nett sé.

Öskudagur

Bara gaman


Erfið helgi í vinnunni... Þessi vodkakúnni leggur ómælt erfiði á mann.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Loksins


Eftir erfiðan 9 ára aðskilnað er loks komið aftur epli á mitt borð.

föstudagur, desember 29, 2006

Lesendur agndofa yfir frétt um talandi páfagauk sem stundaði áður hugsanaflutning

Mbl.is birtir frétt 29. des. 2006 um talandi páfagauk og vitnar í fréttir á fréttavef BBC.
Páfagaukurinn er sá sami en frétt BBC birtist hinsvegar árið 2004. Það er merkilegt að vísindamenn séu enn að falla í stafi yfir þessu, þetta ætti að vera orðið vel kynnt á meðal þeirra vísindamanna sem sinna t.d. atferli dýra, tungumálum og þessháttar.

Þegar maður les þetta hérna vakna spurningar:
http://itre.cis.upenn.edu/~myl/languagelog/archives/000400.html

Heili páfagauks er sem sagt á stærð við hnetu og hefur í raun enga möguleika á að setja saman orginal setningar í tengslum við umhverfi sitt .
Það vekur enn frekari efasemdir þegar í ljós kemur að sami páfagaukur var í fréttum árið 2001 fyrir hugsanaflutning!
Enginn hefur reyndar getað endurtekið eða sannreynt tilraunirnar, sem er jú grunnforsenda vísindalegra tilrauna. Hér er umfjöllun um hugsanaflutninginn.
http://www.sheldrake.org/nkisi/
Gagnrýnisraddirnar gefa ekki mikið fyrir þessa tilraun.
http://www.csicop.org/list/listarchive/msg00168.html

Eftir stendur að frétt um talandi páfagauk með gríðarlegan orðaforða og mikinn húmor er í fyrsta lag gömul og í öðru lagi virðist ekki mikið á bak við hana, því miður.

Páfagaukurinn N'kisi getur því líklega ekki afrekað meira en biðja um kex, líkt og Pollý forðum.

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Bloggleysi

Hef komist að þeirri niðurstöðu að ég mun tapa bloggstríðinu vegna þess að það gerist aldrei neitt hjá mér sem vert er að blogga um. Síðan ég bloggaði síðast að einhverju ráði hefur nefnilega ósköp lítið á daga mína drifið, ég skrapp til Bangkok en komst út rétt áður en stjórnarbyltingin var gerð, fór til Englands að taka upp auglýsingu, fór í skemmtiferð til Köben, át kengúru og krókódíl á Reef'nBeef, og lenti á Akureyri á leiðinni til baka við blá blikkljós slökkviliðsins vegna reyks í farþegarými, ég sagði upp vinnu síðustu þriggja ára um daginn og er búinn að stofna nýtt fyrirtæki í almannatengslum, fór á Sykurmolatónleika í boði trommarans og skemmti mér vel, tengdi gólfhita og ofn á baðinu um daginn og er búinn að rífa allt innan úr kjallaraherbergi til að gera þar almennilegt baðherbergi.
En þetta eru auðvitað engin tíðindi í samanburði við herraklippingar, nýjar myndavélar og snjókomu. Slíkur nútíma og ofurhraða lífsstíll er bara ekki fyrir mig og ég játa mig því sigraðan fyrirfram í bloggstríðinu.

mánudagur, september 18, 2006

Systir þess skrifblinda á Vísi

Sá skrifblindi á Vísi hefur skemmt mér vel undanfarin misseri. Það hefur minna borið á honum að undanförnu en góðu fréttirnir eru hinsvegar þær að systir hans virðist byrjuð að vinna á mbl.is/
Hún er ekki skrifblind, en hana skortir illa skammtímaminni, það illilega að þegar kemur fram í miðja frétt er hún eiginlega búin að gleyma því um hvað fréttin snerist upphaflega. Einnig er áberandi að hún kynnir fólk ekkert sérstaklega til sögunnar heldur hrynji í hausinn á manni gælunöfn í miðri frétt sem lesandinn þekkir hvorki haus né sporð á.
Hér er eitt lítið sætt dæmi.

mánudagur, september 11, 2006

Ekkert blogg?

Jónas Jónasson: (Með djúpri og yfirvegaðri flauelsröddu) "Nú er konan farin frá þér, þú hefur misst sjónina á öðru auga, varst lýstur gjaldþrota í gær og útlit fyrir að fjarlægja þurfi af þér bæði eistun. (dramatísk þögn fyllir útvarpstækið) . . . ertu sáttur?"

Ég held sum sé að það sé einföld ástæða fyrir óheyrilegri bloggleti minni - almenn ánægja með lífið og tilveruna. Þrátt fyrir alla meinfýsni sem úr sér vaxnir kópavogsvesturbæingar, af keflvískum ættum, reyna að hella yfir mig, þá sit ég bara eins og búddamunkur, eða fimmtugur poppari í bleikri skyrtu, og svara með hálfvitaglotti: Sáttur!

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Sýn - að minnsta kosti næstbesta sætið

Ég hef lengi ætlað að bæta við þennan síðasta póst, þótt ég hyggist ekki taka upp blogg að nýju í stórum stíl. En staðreyndin er sem sagt sú að Sýn reyndist ekki vera versta sætið eftir allt saman. Ég hafðu áhyggjur af tvennu, breiðtjaldsútsendingu annars vegar og möguleikanum á HD (háskerpu) hinsvegar. HD var einfaldlega of fjarlægur draumur og ekki í skotfæri í þetta skipti.
Rás 18 á Sýn bjargaði mannorði þeirra algerlega, þar var hægt að sjá fulla breidd á útsendingunni. Munurinn var hreint ótrúlegur. Takk fyrir það - já og takk fyrir keppnina.

sunnudagur, maí 28, 2006

Sýn - versta sætið?

Það er opinbert - Sýn ætlar að skíta á sig í HM 2006 - sama lélega formatið - sama lélega signalið og upplausnin. Tækniframfarir þessa heims fara fram hjá litlu eyjunni í norðri vegna þess að við sitjum uppi með Digital Island og 365 ljósvakamiðla.

föstudagur, apríl 14, 2006

Flott grafík



Þýsku raunveruleikaþættirnir

Þýskir raunveruleikaþættir um hóp hátt launaðra karlmanna sem ákveða að taka sér frí frá hálaunavinnunni til þess að vinna nær kauplaust í heilan mánuð við erfiðar aðstæður, til þess eins að varpa gleði og ánægju inn í lífið hjá fjöldanum öllum af fólki um allan heim.
Mér skilst þeir heiti Germany 20 06 eða eitthvað álíka og eru víst í 64 þáttum. Og það sem er líka merkilegt, þeim verður öllum sjónvarpað í júní í ár.


Góðar fréttir:
HBS has chosen to cover the 2006 FIFA World Cup™ Germany in Widescreen (16/9) HDTV digital format. HDTV technical standard will be HD-SDI 1080i / 50, a worldwide compatible standard.

Þá er bara að hafa vökult auga með Sýn, ætla þeir virkilega að skemma þetta fyrir okkur?

http://www.hostbroadcastservices.com/faq.php

þriðjudagur, mars 28, 2006

"Suki, go and fetch the water."

Hafi enginn tekið eftir því þá játa ég það fúslega á mig að ég nenni ekki að blogga um þessar mundir. Mér finnst einhvern veginn allt annað vera meira spennandi í augnablikinu og það er einfaldlega ekkert sem er að naga mig neitt sérstaklega. Kannski er ég bara orðinn svona þroskaður í seinni tíð hver veit.
En ég sá samt þennan






á sviði í London um daginn og það var svei mér gaman.

laugardagur, mars 04, 2006

Langflottust

Hef ekki fleiri orð um það. Sinn fugl auðvitað og allt það.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Þjófræði

Rakst á þetta orð "þjófræði" í pistli hjá Agli Helgasyni.
Kannski var of stutt síðan ég vaknaði og sellurnar ekki komnar á fullan vinnusnúning, amk. hringlaði ég fram og til baka með merkinguna.

Ég skipti nefnilega orðinu "þjó-fræði", sem á ensku væri líklega nefnt assology.
Hefði betur skipt því svona: þjóf-ræði

Er ekki kominn tími til að safna?
ístru-flanir
blása-klaus

(og jú, vissulega Hörður, járnsa-garblað fær að vera með.)

þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Ó en yndislegt!

Guð, hvað ég er glaður í hjarta mínu yfir þessum frábæru tækifærum sem stúlkum bjóðast sem fara í fegurðarsamkeppni. Hvernig annars hefðu þessar sveitastúlkur átt möguleika á því að kynnast höfuðborginni, hvað þá Skotfélagi Árborgar, nema með því að taka þátt í fegurðarsamkeppni? Þetta er náttúrulega mjög mikið tækifæri fyrir þær og opnar gríðarlega mikla möguleika. Og ef allt, og ég meina, ALLT,gengur upp hjá einhverri þeirra þá hampar hún titlinum Ungrú Suðurland 2006! Er hægt að hugsa sér betra veganesti út í lífið? Getur ung stúlka í raun nokkurn tímann fengið eins góð meðmæli í lífinu eins og að geta sagt seinna meir, t.d. í atvinnuviðtali þegar hún sækir um starf fjármálastjóra hjá Actavis eftir 8 ár; "já og svo var ég auðvitað Ungfrú Suðurland árið 2006. Og jafnvel þótt hún hreppi ekki titilinn getur hún samt sagt með stolti, ja ég varð nú í þriðja sæti um ungfrú Suðurland árið 2006 og var auk þess valin vinsælasta stúlkan! Stúlka með slíka reynslu stendur einfaldlega svo miklu betur að vígi en kynsystur hennar sem ekki hafa fengið þetta frábæra tækifæri til að kynnast höfuðborginnni og skotsvæðinu í Árborg, svo ekki sé talað um að koma fram á sundbolum og síðkjólum á sviðinu í Inghóli.